Viðbótarþjónustuskilmálar Google One
Tekur gildi: 9. nóvember 2021 |Til að nota og fá aðgang að Google One, hvort sem þú ert umsjónarmaður Google One áskriftar, tilheyrir fjölskylduhópi sem deilir Google One eða ert notandi án þess að vera meðlimur, þarftu að samþykkja (1) þjónustuskilmála Google og (2) þessa viðbótarþjónustuskilmála Google One („Viðbótarskilmála Google One“).
Lestu öll skjölin vandlega. Saman eru þessi skjöl kölluð „skilmálar“. Í þeim kemur fram hvers þú getur vænst af okkur þegar þú notar þjónustur okkar og hvers við væntum af þér.
Ef ósamræmi er á milli þessara viðbótarskilmála Google One og þjónustuskilmála Google gilda þessir viðbótarskilmálar hvað varðar Google One, nema fyrir viðskiptavini Google One í Frakklandi.
Við hvetjum þig til að lesa persónuverndarstefnuna okkar, jafnvel þótt hún sé ekki hluti af þessum skilmálum, til að skilja betur hvernig þú getur uppfært, stjórnað, flutt út og eytt upplýsingunum þínum.
1. Almenn lýsing á Google One
Google býður upp á Google One til að veita þér aðgang að þjónustum Google, veita verðlaun og tilboð og bjóða þér að uppgötva nýja eiginleika og nýjar vörur. Eiginleikar Google One kunna að fela í sér gjaldskyldar áskriftarleiðir sem er deilt á milli Google Drive, Google mynda og Gmail, notendaþjónustu fyrir ýmsar vörur Google, eiginleika fjölskyldudeilingar, afritun og endurheimt með fjartengingu og aðra valkosti sem Google eða þriðju aðilar veita þér. Notkun þín á öðrum vörum eða þjónustum Google fellur undir gildissvið þjónustuskilmála viðkomandi vara eða þjónustna. Sumar vörur, eiginleikar og fríðindi eru hugsanlega ekki í boði í öllum löndum. Þú getur nálgast frekari upplýsingar í hjálparmiðstöð Google One.
2. Gjaldskyldir reikningar – greiðslur, áskrift og endurgreiðslur
Greiðslur. Aðeins umsjónarmenn Google One áskrifta geta keypt, uppfært, niðurfært eða sagt upp áskrift að Google One. Google tekur við greiðslum í gegnum Google Payments reikning eða annan greiðslumáta sem tilgreindur er fyrir kaupin.
Uppsagnir áskriftar. Google Payments tekur sjálfkrafa greiðslu frá þeim degi sem þú skráir þig í áskrift að Google One og áskriftin að Google One endurnýjast sjálfkrafa þar til þú segir henni upp. Þú getur sagt upp áskrift hvenær sem er. Ef þú segir upp áskriftinni færðu áfram aðgang að Google One á gildistíma núverandi áskriftar. Ef þú kýst að eyða Google One með því að eyða þjónustunni samþykkirðu að þú kannt að missa aðgang þinn að þjónustu og virkni Google One tafarlaust, án endurgreiðslu fyrir eftirstandandi gildistíma núverandi áskriftar. Ef þú vilt halda áfram að nota þjónustu Google One út gildistíma áskriftarinnar skaltu segja áskriftinni upp frekar en að eyða Google One.
Réttur til afturköllunar. Ef þú býrð innan ESB eða í Bretlandi áttu rétt á að segja upp áskriftinni innan 14 daga frá því að þú skráir þig í, uppfærir eða endurnýjar Google One áskrift án þess að gefa upp neina ástæðu. Til að nýta réttinn til afturköllunar þarftu að tilkynna þeirri þjónustuveitu sem þú keyptir áskriftina af um ákvörðun þína með ótvíræðri yfirlýsingu þess efnis.
Endurgreiðslur. Frekari réttur til endurgreiðslu fellur undir viðeigandi reglu frá Google Play eða þeirri þjónustuveitu sem þú keyptir áskriftina hjá. Ef þú keyptir frá Google er hvorki hægt að fá endurgreitt né greiða fyrir hluta greiðslutímabilsins nema að því leyti sem gildandi lög kveða á um. Ef þú keyptir frá öðrum en Google, t.d. með iPhone eða iPad, eða skráðir þig í áskrift að Google One í gegnum App Store eða aðra þjónustuveitu þriðja aðila, gilda reglur um endurgreiðslur frá viðkomandi þjónustuveitu. Þú þarft að hafa samband við viðeigandi þriðja aðila (t.d. þjónustudeild Apple) til að biðja um endurgreiðslu.
Breytingar á verðlagi. Við kunnum að breyta verðlagningu Google One áskrifta en munum láta þig vita af slíkum breytingum með fyrirvara. Þessar breytingar taka gildi eftir að núverandi greiðslutímabili lýkur og þegar komið er að næstu greiðslu eftir að tilkynnt er um breytingarnar. Við látum þig vita af verðhækkunum a.m.k. 30 dögum áður en til innheimtu kemur. Ef þú færð minna en 30 daga fyrirvara tekur breytingin ekki gildi fyrr en greiða á þarnæstu greiðslu. Ef þú vilt ekki halda áfram að nota Google One á nýja verðinu geturðu sagt upp áskriftinni eða niðurfært hana hvenær sem er í áskriftarstillingum Google Play, Apple eða þriðja aðila. Uppsögnin eða niðurfærslan tekur gildi við næsta greiðslutímabil eftir að núverandi þjónustutímabili lýkur nema annað komi fram í gildandi skilmálum greiðsluþjónustunnar. Þegar verðhækkun verður og samþykkis er krafist er hugsanlegt að áskriftinni þinni verði sagt upp ef þú samþykkir ekki nýja verðið. Ef áskriftinni er sagt upp og þú ákveður síðar að gerast áskrifandi á ný greiðir þú það áskriftarverð sem er í gildi þegar þú skráir þig aftur í áskrift.
3. Þjónustudeild
Google One veitir þér aðgang að þjónustudeildum ýmissa Google vara og þjónustna („þjónustudeild“). Ef þjónustudeildin getur ekki hjálpað þér varðandi fyrirspurnir þínar kunnum við að vísa þér eða framsenda þig á þjónustudeild viðkomandi Google vöru eða þjónustu. Þetta á við um tilvik þegar Google One heldur ekki úti þjónustudeild fyrir tiltekna Google vöru eða þjónustu. Ef áskrift þinni að Google One er sagt upp eða lokað kunna óleyst vandamál þín hjá þjónustudeild einnig að falla niður og þú þarft hugsanlega að leggja fram nýja fyrirspurn þegar þú hefur opnað aftur fyrir áskriftina þína.
4. Takmörkuð meðlimafríðindi
Google One kann að bjóða þér upp á efni, vörur og þjónustur með afslætti eða án greiðslu („Takmörkuð meðlimafríðindi“). Takmörkuð meðlimafríðindi takmarkast hugsanlega við land, framboð, tímalengd, aðildarflokk og aðra þætti og ekki eru öll takmörkuð meðlimafríðindi í boði fyrir alla áskrifendur að Google One. Sum takmörkuð meðlimafríðindi getur e.t.v. aðeins umsjónarmaður Google One áskriftar innleyst og sum takmörkuð meðlimafríðindi geta e.t.v. meðlimir fjölskylduhópsins eða bara fyrsti fjölskyldumeðlimurinn sem innleysir fríðindin innleyst. Sum takmörkuð meðlimafríðindi er ekki hægt að innleysa með Google reikningum barna og unglinga eða með reikningum í prufuáskrift. Önnur skilyrði fyrir þátttöku kunna að gilda.
Við kunnum að vinna með þriðju aðilum til að veita þér þjónustu þeirra eða efni sem takmörkuð meðlimafríðindi í gegnum Google One. Til að geta innleyst takmörkuð meðlimafríðindi frá þriðja aðila samþykkir þú að Google hafi heimild til að veita þriðja aðila allar nauðsynlegar persónuupplýsingar til að vinna úr innlausnarbeiðni þinni, í samræmi við persónuverndarstefnu Google. Notkun þín á takmörkuðum meðlimafríðindum frá þriðja aðila kann að falla undir notkunarskilmála, leyfissamning, persónuverndarstefnu eða annan álíka samning frá viðkomandi þriðja aðila.
5. Fjölskyldur
Ef þú ert með fjölskylduhóp geturðu deilt tilteknum eiginleikum Google One með honum, þar á meðal geymslurými á Drive, Gmail og Myndum („Fjölskyldudeiling“). Fjölskylduhópurinn getur hugsanlega einnig tekið við og innleyst takmörkuð meðlimafríðindi sem standa þér til boða. Ef þú vilt ekki deila slíkum eiginleikum með fjölskylduhópnum verðurðu að slökkva á fjölskyldudeilingu í Google One eða ganga úr fjölskylduhópnum. Aðeins umsjónarmenn Google One áskrifta geta bætt við fjölskyldumeðlimum og kveikt eða slökkt á deilingu með fjölskyldu í Google One áskrift.
Ef þú ert í fjölskylduhópi á Google One geta meðlimir fjölskylduhópsins séð tilteknar upplýsingar um þig. Ef þú gengur í fjölskylduhóp á Google One og fjölskyldudeiling er virk geta aðrir meðlimir og boðsgestir fjölskylduhópsins hugsanlega séð nafnið þitt, myndina af þér og netfangið þitt, tækin sem þú hefur tekið afrit af og geymslurýmið sem þú notar á Google Drive, Gmail og Google-myndum. Meðlimir fjölskylduhóps geta einnig séð ef aðrir fjölskyldumeðlimir hafa innleyst takmörkuð meðlimafríðindi.
Ef þú ert umsjónarmaður Google One áskriftarinnar í fjölskylduhópnum og slekkur á fjölskyldudeilingu eða yfirgefur fjölskylduhópinn glata aðrir meðlimir fjölskylduhópsins aðgangi sínum að Google One. Þegar umsjónarmaður Google One áskriftar veitir þér aðgang að Google One í gegnum fjölskyldudeilingu missirðu aðgang að Google One ef þú yfirgefur fjölskylduhópinn eða ef umsjónarmaður Google One áskriftarinnar slekkur á fjölskyldudeilingu eða yfirgefur fjölskylduhópinn.
6. Afritun og endurheimt snjalltækja
Google One kann að bjóða þér aukna þjónustu við afritun og endurheimt gagna („Afritun og endurheimt“) fyrir gjaldgeng snjalltæki og gjaldgengar farsímaáskriftir. Hugsanlega verður að setja upp og virkja fleiri forrit til að nota afritun og endurheimt, t.d. Google-myndir. Þú getur breytt valkostum fyrir afritun og endurheimt hvenær sem er í Google One forritinu. Ef áskrift þinni að Google One er sagt upp eða lokað missir þú hugsanlega aðgang að gögnum sem vistuð eru með afritun og endurheimt eftir tiltekinn tíma, í samræmi við reglur um öryggisafritun Android.
7. Stuðningsáskriftir
Hugsanlegt er að Google One standi þér til boða í gegnum stuðningsáskrift frá stuðningsaðila utan Google, t.d. frá símafyrirtæki, netþjónustu eða öðrum þriðja aðila (í öllum tilfellum „Stuðningsáskrift“). Stuðningsaðilar ákvarða alla tiltæka eiginleika og gjöld fyrir stuðningsáskriftir svo að allar upplýsingar um verðlagningu Google One og skilmála stuðningsáskriftarinnar er að finna í þjónustuskilmálum viðkomandi aðila. Þú getur hugsanlega upp- eða niðurfært stuðningsáskriftina í gegnum stuðningsaðilann (í slíkum tilfellum gilda greiðslu- og áskriftarskilmálar viðkomandi aðila um upp- eða niðurfærsluna) eða með því að velja upp- eða niðurfærslukost beint frá Google One (í slíkum tilfellum gilda greiðslu- og áskriftarskilmálar sem koma fram hér um upp- eða niðurfærsluna). Stuðningsaðilinn ákvarðar gjaldgengi þitt fyrir og áframhaldandi aðgang þinn að Google One í gegnum stuðningsáskrift og stuðningsaðilanum er heimilt að loka eða segja upp stuðningsáskriftinni þinni hvenær sem er.
8. Persónuvernd
Google safnar saman og notar upplýsingar sem þú lætur í té í því skyni að bjóða þér Google One eins og lýst er í þessum skilmálum samkvæmt persónuverndarstefnu Google. Við kunnum að safna og nota upplýsingar um notkun þína á Google One til að veita þjónustur Google One, vinna úr færslum frá þér eða til að viðhalda og bæta Google One. Við kunnum einnig að nota upplýsingar um notkun þína á öðrum Google þjónustum til að bæta Google One, bjóða þér upp á fríðindi eða til að markaðssetja Google One. Þú getur stjórnað söfnun og notkun Google virkni þinnar á myaccount.google.com.
Við kunnum að deila tilteknum upplýsingum um þig með þriðju aðilum eftir þörfum til að útvega Google One, þ.m.t. til að ákvarða gjaldgengi þitt fyrir eða innlausn þína á takmörkuðum meðlimafríðindum þriðju aðila eða gjaldgengi þitt fyrir stuðningsáskrift eða prufuáskrift. Við kunnum einnig að deila upplýsingum um þig með fjölskylduhópnum þínum í því skyni að veita upplýsingar um stöðu og áskrift fjölskylduhópsins á Google One.
Við kunnum að senda þér þjónustutilkynningar, stjórnunarskilaboð og aðrar upplýsingar í tengslum við notkun þína á Google One. Við sendum þér einnig hugsanlega tölvupósta og tækjatilkynningar varðandi takmörkuð meðlimafríðindi. Þú getur afþakkað sum þessara skilaboða.
9. Breytingar
Við áskiljum okkur rétt til að gera breytingar á Google One og þjónusta Google One kann að vera endurskoðuð til að bjóða upp á fleiri eða aðra eiginleika. Þú samþykkir að áskrift þín að Google One eigi við um Google One í því formi sem fram kemur í upphafi áskriftar. Eins og fram kemur í hluta 2 hér að ofan kunnum við einnig annað slagið að bjóða upp á aðra skilmála og flokka fyrir Google One og áskriftargjald slíkra skilmála eða flokka kann að vera breytilegt.
10. Uppsögn
Google getur hætt að bjóða þér upp á Google One hvenær sem er, þ.m.t. vegna brots gegn þessum skilmálum. Stuðningsaðili þinn getur einnig lokað eða sagt upp aðgangi þínum að Google One ef þú ert með stuðningsáskrift. Google áskilur sér rétt til að loka eða hætta með Google One hvenær sem er, að því gefnu að þú fáir tilkynningu um slíkt með sanngjörnum fyrirvara.