Viðbótarþjónustuskilmálar Google One

Síðast breytt: 11. nóvember 2025 |

Til að nota Google One þarftu að samþykkja (1) þjónustuskilmála Google og (2) þessa viðbótarþjónustuskilmála Google One („viðbótarskilmálarnir“). Hugtök sem eru ekki skilgreind í þessum viðbótarskilmálum hafa þá merkingu sem þeim er gefin í þjónustuskilmálum Google.

Lestu þessi skjöl vandlega. Saman eru þessi skjöl kölluð „Skilmálar“. Í þeim kemur fram hvers þú getur vænst af okkur þegar þú notar þjónustu okkar og hvers við væntum af þér.

Við hvetjum þig einnig til þess að lesa persónuverndarstefnu okkar til að skilja betur hvernig þú getur uppfært, haft umsjón með, flutt út og eytt upplýsingunum þínum.

1. Þjónusta okkar

Google One býður upp á áskriftir með gjaldskyldu geymslurými sem deilt er á milli Gmail, Google-mynda og Google Drive, m.a. áskriftir með viðbótarfríðindum sem Google eða utanaðkomandi aðilar veita þér. Google One býður einnig upp á áskriftir og gervigreindarinneign sem veita aðgang gegn gjaldi að ákveðnum gervigreindareiginleikum sem Google hefur smíðað. Notkun þín á öðrum vörum eða þjónustum Google fellur undir gildissvið þjónustuskilmála viðkomandi fríðinda. Sum fríðindi eru hugsanlega ekki í boði í öllum löndum og geta verið háð öðrum takmörkunum. Þú getur nálgast frekari upplýsingar í hjálparmiðstöð Google One.

Þú færð þjónustu Google One í gegnum Google-aðilann samkvæmt þjónustuskilmálum Google. Þegar þú kaupir Google One-áskrift eða gervigreindarinneign gengstu undir aðskilinn samning við seljandann, sem gæti verið Google-aðili (sjá lið 2) eða utanaðkomandi aðili. Ef þú ert með Google One-áskrift í gegnum utanaðkomandi aðila eða hlutdeildarfélag gæti áskriftin þín verið háð viðbótarskilmálum þessa utanaðkomandi aðila eða hlutdeildarfélags.

Gervigreindarinneign

Þú getur notað gervigreindarinneign til að leggja fram og vinna úr beiðnum þínum innan ákveðinna gervigreindareiginleika. Þér verður sagt hvaða magn inneignar þarf til að framkvæma tiltekna aðgerð (t.d. að búa til vídeó) í vörunni eða eiginleikanum sjálfum. Google áskilur sér rétt til þess að breyta inneignarkostnaði notkunar gervigreindareiginleika. Aðeins er hægt að nota gervigreindarinneign til að fá aðgang að ákveðnum gervigreindareiginleikum sem Google kann að gera aðgengilega annað slagið.

Gervigreindarinneign getur runnið út eftir ákveðinn tíma eins og fram kemur þegar þú eignast hana.

Þú átt engan rétt eða tilkall til inneignar í gervigreind nema eins og kemur fram á óyggjandi hátt í þessum skilmálum. Þú mátt ekki selja eða flytja gervigreindarinneignina til annars notanda eða reiknings eða reyna að selja eða flytja gervigreindarinneign. Þegar þú kaupir gervigreindarinneign ertu að greiða fyrirfram fyrir notkun tiltekinna gervigreindareiginleika. Gervigreindarinneign er ekki stafrænn gjaldmiðill, verðbréf, varningur eða nokkuð annars konar fjármálatól og hana er ekki hægt að innleysa fyrir peningagildi. Aðeins er hægt að nota gervigreindarinneign í tiltekna gervigreindareiginleika innan vistkerfis Google. Ónotuð gervigreindarinneign getur glatast við uppsögn Google One-áskriftarinnar, háð gildandi endurgreiðslureglum.

Hægt er að lesa nánar um gervigreindarinneign hér.

2. Kaup og greiðsla

Google One-áskriftir eru virkar ótímabundið. Greiðsla verður tekin af þér við upphaf hvers greiðslutímabils í samræmi við áskriftarskilmála þína (t.d. mánaðarlega, árlega eða með öðru reglulegu millibili) nema þú hættir áskriftinni.

Þegar þú kaupir Google One-áskrift eða gervigreindarinneign verða kaup þín háð öðrum skilmálum seljandans. Þegar þú skráir þig t.d. í Google One-áskrift eða kaupir gerivgreindarinneign í gegnum Google Play Store verða kaup þín háð þjónustuskilmálum Google Play.

Seljandi kaupa þinna á Google One-áskrift eða gerivgreindarinneign í gegnum Google Play Store er:

  • Fyrir neytendur í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku: Google Commerce Limited
  • Fyrir neytendur á Indlandi: Google Ireland Limited
  • Fyrir neytendur í öðrum Asíulöndum og Kyrrahafinu: Google Digital Inc.
  • Fyrir neytendur í Bandaríkjunum og öllum öðrum löndum: Google LLC.

Þegar þú kaupir Google One-áskrift eða gervigreindarinneign í gegnum utanaðkomandi aðila eða hlutdeildarfélag skuldfærir sá utanaðkomandi aðili eða hlutdeildarfélag greiðslumátann þinn og ber ábyrgð á umsjón með öllum vandamálum sem tengjast greiðslunni, m.a. uppsögnum og endurgreiðslum.

Ef seljandinn getur ekki tekið við greiðslu frá þér fyrir Google One-áskriftinni færðu mögulega ekki aðgang að Google One fyrr en þú uppfærir greiðslumátann þinn hjá seljandanum. Ef þú uppfærir ekki greiðslumátann innan sanngjarns tíma eftir að tilkynningin berst gætum við sagt upp eða lokað aðgangi þínum að Google One.

3. Verðlagning og tilboð

Tilboð. Við gætum boðið upp á prufuáskrift að Google One án greiðslu annað slagið. Ef þú kaupir áskrift að Google One sem innifelur prufuáskrift færðu aðgang að Google One meðan á tíma prufuáskriftarinnar stendur. Eftir því sem gildandi lög leyfa verður verð áskriftarinnar innheimt af þér sjálfvirkt á hverju greiðslutímabili eftir að prufutímanum lýkur, að því gefnu að þú hafir gefið seljandanum upp gildan greiðslumáta. Þetta gjald verður áfram tekið af þér þar til þú segir upp áskriftinni. Til að forðast gjöld verðurðu að segja upp áskriftinni hjá seljandanum áður en prufutímanum lýkur. Við gætum einnig boðið upp á afslætti af áskrift að Google One annað slagið. Viðbótarskilmálar, þar á meðal þátttökuskilyrði, geta gilt um þessi tilboð en þú getur nálgast slíka viðbótarskilmála áður en þú innleysir tilboðið eða kaupir. Tilboð eru ógild á þeim svæðum þar sem þau eru bönnuð eða takmörkuð af gildandi lögum.

Breytingar á verðlagningu. Við gætum breytt verði Google-One áskrifta eða gervigreindarinneignar annað slagið, til dæmis til að endurspegla verðbólgu, breytingar á gildandi sköttum, breytingar vegna kynningartilboða, breytingar á Google One eða breyttar þarfir fyrirtækja. Um breytingar á verði á Google One-áskriftum gildir að breytingarnar taka gildi eftir að yfirstandandi greiðslutímabili er lokið og á næsta gjalddaga eftir tilkynninguna. Við látum þig vita af verðhækkunum með a.m.k. 30 daga fyrirvara áður en til innheimtu kemur. Ef þú færð minna en 30 daga fyrirvara tekur breytingin ekki gildi fyrr en greiða á þarnæstu greiðslu. Ef þú vilt ekki halda Google One-áskriftinni áfram á hærra verði geturðu sagt henni upp eins og lýst er í hlutanum „Uppsagnir“ í þessum skilmálum. Þá verður ekki skuldfært fyrir áskrift framvegis, að því gefnu að þú hafir látið okkur vita innan yfirstandandi greiðslutímabils. Þegar verðhækkun verður og samþykkis er krafist verður áskriftinni þinni verði sagt upp ef þú samþykkir ekki nýja verðið.

4. Uppsögn og endurgreiðslur

Uppsögn og afturköllun. Ef þú segir upp áskriftinni færðu áfram aðgang að Google One það sem eftir er yfirstandandi greiðslutímabils nema þú eigir rétt á uppsögn sem tekur strax gildi eða hafir önnur uppsagnar- eða afturköllunarréttindi eins og nánar er lýst í hjálparmiðstöðinni. Ef þú átt rétt til afturköllunar og vilt nýta þér hann verðurðu að tilkynna ákvörðun þína um afturköllun með óyggjandi yfirlýsingu til seljandans sem kaupin voru gerð hjá. Ef þú óskar eftir að hefja notkun þjónustunnar á afturköllunartímabilinu gætirðu þurft að greiða upphæð í hlutfalli við veitta þjónustu þangað til að þú tilkynntir seljandanum um afturköllun þína á samningnum.

Ef þú velur að eyða Google One með eyðingu á þjónustusamþykkirðu að þú gætir strax misst aðgang að þjónustu Google One. Ef þú kýst að halda þjónustu Google One það sem eftir er greiðslutímabilsins skaltu segja upp áskriftinni frekar en að eyða Google One.

Endurgreiðslur. Ef þú keyptir Google One-áskrift eða gervigreindarinneign gilda endurgreiðslureglurnar. Þú verður að hafa samband við seljandann sem þú gerðir kaupin hjá til þess að biðja um endurgreiðslu. Hugsanlega hefurðu réttindi neytenda samkvæmt gildandi lögum sem ekki er hægt að takmarka með samningi. Þessir skilmálar takmarka ekki þau réttindi.

5. Þjónustudeild

Google One gæti innifalið aðgang að þjónustudeild fyrir ákveðnar Google-þjónustur. Ef þjónustudeildin getur ekki hjálpað þér varðandi fyrirspurnir þínar kunnum við að vísa þér eða framsenda þig á þjónustudeild viðkomandi Google-þjónustu. Ef Google One-áskriftinni þinni er sagt upp eða lokað kunna óleyst vandamál þín hjá þjónustudeild einnig að falla niður og þú þarft hugsanlega að leggja fram nýja fyrirspurn þegar þú hefur opnað aftur fyrir áskriftina þína. Í hjálparmiðstöðinni okkar er að finna nánari upplýsingar um þjónustudeildina.

6. Fjölskyldudeiling

Google One-áskriftin þín gæti leyft þér að deila ákveðnum fríðindum með fjölskylduhópnum þínum („Fjölskyldudeiling“). Ef þú vilt ekki deila fríðindum með fjölskylduhópnum verðurðu að slökkva á fjölskyldudeilingu fyrir Google One eða fara úr fjölskylduhópnum. Aðeins stjórnendur Google One-áskriftarinnar geta bætt fjölskyldumeðlimum við og virkjað eða slökkt á fjölskyldudeilingu í Google One-áskrift. Í hjálparmiðstöðinni okkar finnurðu nánari upplýsingar um fjölskyldudeilingu.

Ef þú ert í fjölskylduhóp á Google One geta meðlimir fjölskylduhópsins séð ákveðnar upplýsingar um þig. Ef þú til dæmis gengur í fjölskylduhóp á Google One og fjölskyldudeiling er virk geta aðrir meðlimir (og boðsgestir) fjölskylduhópsins hugsanlega séð nafnið þitt, myndina af þér, netfangið þitt, tækin sem þú hefur tekið öryggisafrit af, gervigreindarinneign sem þú hefur notað og geymslurýmið sem þú notar. Meðlimir fjölskylduhóps geta einnig séð hvort fjölskyldumeðlimur hafi innleyst ákveðin viðbótarfríðindi sem fylgja Google One-áskriftinni.

Ef þú ert stjórnandi Google One-áskriftarinnar í fjölskylduhópnum og þú annað hvort slekkur á fjölskyldudeilingu eða ferð úr fjölskylduhópnum glata aðrir meðlimir fjölskylduhópsins aðgangi sínum að Google One-áskriftinni. Þegar stjórnandi Google One-áskriftar veitir þér aðgang að Google One í gegnum deilingu með fjölskyldu missir þú aðgang að Google One ef þú yfirgefur fjölskylduhópinn eða ef stjórnandi Google One-áskriftarinnar slekkur á deilingu með fjölskyldu eða yfirgefur fjölskylduhópinn.

7. Afritun og endurheimt snjalltækja

Google One gæti innifalið endurbætt öryggisafrit af gögnum og endurheimtarvirkni („Öryggisafrit og endurheimt“) fyrir gjaldgeng snjalltæki. Hugsanlega verður að setja upp og virkja fleiri forrit til að nota afritun og endurheimt eins og Google-myndir. Þú getur breytt valkostum fyrir afritun og endurheimt hvenær sem er í Google One-forritinu. Ef Google One-áskriftinni þinni er sagt upp eða henni lokað missirðu hugsanlega aðgang að gögnum sem vistuð eru með afritun og endurheimt eftir tiltekinn tíma, samkvæmt reglum um öryggisafritun Android.